“Neyðin kennir naktri konu að spinna” eða “það sem drepur þig ekki gerir þig bara sterkari”. Þessi tvö máltæki lýsa því best hvernig Massi þrif ehf varð til. Fram að 1994 hafði ég prófað ýmislegt um ævina en var þó lengst af til sjós. Eftir að útgerðarævintýri mínu lauk um áramótin 93-94 var ég atvinnulaus og skuldugur. Ég flutti vestur á Ísafjörð, leigði mér herbergi á gamla gistiheimilinu og fór að beita. Ég hafði áður unnið bæði við bílaþrif og hreingerningar og þegar tækifæri gafst um sumarið 94, greip ég það og opnaði bílabónstöð. Við vorum þá hinum megin í sama húsi og við erum núna í dag.

Fyrst um sinn hafði ég bara opið frá 15.00 til 19.00 og vann sem verkamaður við byggingavinnu fram að opnun Massa. Ein garðslanga, svampur, nokkrir bónbrúsar og mikil bjartsýni var byrjunin. Allir sem ég talaði við sögðu að þetta myndi aldrei ganga. Ég hinsvegar hef alltaf haft trú á því að dugnaður og heiðarleiki gætu ekki annað en skilað árangri og það reyndist rétt. Fljótlega gat ég hætt hinu starfinu og einbeitti mér að því að auka verkefnin hjá hinu nýstofnaða fyrirtæki.

Það vantaði nafn á fyrirtækið. Á þessum tíma stundaði ég lyftingar grimmt. Að hafa mikinn “massa” þykir öflugt og traustvekjandi meðal lyftingamanna. Einn daginn sló ég því fram í gríni við félaga mína að nafnið yrði “MASSI” og það varð úr. Ekki vissi ég þá að húsnæðið sem ég leigði var kallað “Massa húsið” í höfuðið á Marselíusi eða “Marsa”. Það sem ég hef síðan heyrt um karlinn er að hann hafi verið mjög duglegur maður. Mér hefur alla tíð fundist að góðir vættir vaki yfir okkar rekstri því vöxtur hefur verið stöðugur upp á við síðan við stofnuðum fyrirtækið. 

Vöxtur Massa Þrif ehf 1994-2004
Vöxtur Massa Þrif ehf 1994-2004

Á svipuðum tíma kynntist ég konunni minni, Mimmo. Mimmo er finnskur Svíi. Hún kom hingað á vegum Nordjob og bjó þá líka á gistiheimilinu. Það er gaman að segja frá því að gamla gistiheimilið var einu sinni elliheimili. Ég get því sagt að ég hafi kynnst konunni minni á elliheimilinu. Mimmo vann fyrst í rækju hjá Bakka. Um svipað leyti og flóðin voru í Súðavík var orðið svo mikið að gera í bóninu að hún fór að vinna alfarið með mér við þrifin.

Fyrst í stað voru viðskiptin gloppótt og við sáum fram á það að á svona litlum markaði urðum við að hafa “fleiri járn í eldinum” ef reksturinn ætti að ganga. Um tíma prófuðum við að vera með verslun á notuðum hlutum sem hét þá “notað og nýtilegt”. Við sáum fljótlega að það myndi ekki skila arði og fórum þá út í gólfbónun og teppaþrif.
Það næst aldrei nægilega góður árangur við svoleiðis þrif nema að véla- og tækjakosturinn sé nógu góður. Frá upphafi höfum við einbeitt okkur að því að komast yfir bestu vélar, tæki og efni sem eru í boði í dag. En það er ekki nóg að eiga góðan búnað ef maður kann ekki að nota hann.
Við krosslögðum því fingurna og fjárfestum í tækjum og tólum sem nauðsynleg eru í svona vinnu. Sú fjárfesting skilaði sér og við söfnuðum að okkur reynslu. Ef þekkingin er ekki til staðar skiptir tækjakosturinn engu máli. Þróun er ör á sviði hreingerninga eins og á öðrum sviðum og við fylgjumst vel með öllum þeim nýjungum sem verða í okkar grein.

Í dag eru rúmlega 22 ár frá því að við hófum rekstur. Á þessum tíma höfum við bónað og þrifið 7,930 bíla og bónað 3,000. hektara af gólfefnum. Það eru 17 ár síðan við fórum út í daglegar ræstingar. En í dag eru það 11000 fm. sem eru ræst á okkar vegum. Við erum nú í eigin húsnæði í sama húsi og í upphafi og góðir vættir virðast vaka yfir okkur. Við höfum lært mikið í gegnum tíðina um þrif og hreingerningar. Það mikilvægasta er að okkar viðskiptavinir geti treyst okkur og treyst á okkar vinnu.
Við erum mjög þakklát fyrir hversu vel Vestfirðingar hafa tekið okkur og okkar fyrirtæki inn í þetta góða samfélag hér fyrir vestan.

Virðingarfyllst,
Fh MASSA þrif ehf
Árni Þór Árnason